Föstudaginn 14. nóvember kl. 18 mun Multiverse-kvartett trommuleikarans Scotts McLemore koma fram á næstu Síðdegistónum í Hafnarborg. Þá snýst nýútkomin plata kvartettsins, Onward, um bjartsýni fyrir framtíðinni – eitthvað sem sárlega vantar í heiminum í dag.
Mannskapurinn hefur breyst í gegnum tíðina hjá Multiverse en tónlistin sjálf á alltaf rætur að rekja til þess að reyna að gera meira með minna, í anda mínimalískrar nálgunar. Tónsmíðarnar eru lýrísk blanda af amerískri og norrænni tónlist, þar sem hljóðfæraleikararnir finna sameiginlegan farveg í flæði og túlkun sem hrífur hlustandann með á einstakan hátt.
Kvartettinn skipa, auk Scotts, þeir Hilmar Jensson á gítar, Andrés Þór á gítar og Nicolas Moreaux á bassa.
Tónleikarnir standa í um klukkustund og er aðgangur ókeypis.
Tónleikaröðin er styrkt af Hafnarfjarðarbæ.