Safnbúðardagurinn – 23. nóvember

Söfn á höfuðborgarsvæðinu taka sig saman og kynna til sögunnar Safnbúðardaginn, sunnudaginn 23. nóvember næstkomandi.

Við tökum vel á móti ykkur í Hafnarborg og í tilefni dagsins bjóðum við upp á tilboð af völdum bókatitlum, auk þess sem piparkökur og kaffi verða á boðstólum fyrir gesti og gangandi.

Þá er tilvalið að kíkja við í Hafnarborg, skoða nýju sýningarnar okkar, gera góð kaup í safnbúðinni, ganga Strandgötuna og heimsækja jafnvel Jólaþorpið og nýja Fjörð í leiðinni – fullkomin leið til að koma sér í jólaskap.

Verið öll hjartanlega velkomin.

spássían – haustsýning Hafnarborgar 2026

Listráð Hafnarborgar hefur valið sýninguna spássíuna (vinnutitill) sem haustsýningu ársins 2026, úr fjölda tillagna sem bárust fyrr á árinu í gegnum árlegt opið kall safnsins. Sýningarstjórar vinningstillögunnar eru þau Katrín Björg Gunnarsdóttir og Úlfur Bragi Einarsson, sem hyggjast beina sjónum sínum sérstaklega að rými sýningarsalarins – að þeim möguleikum sem búa í hinu óséða eða gleymda, í tóminu sem er í raun aldrei tómt.

Sýningin felur í sér endurmat á möguleikum sýningarrýmisins, sem er gjarnan nálgast sem hlutlaus bakgrunnur, og skilgreinir það í staðinn sem virkan þátttakanda í sýningunni. Með því að kortleggja fyrri sýningar í haustsýningaröð safnsins verður varpað ljósi á þau svæði sem ekki hafa verið nýtt undir verk, auk þeirra rýma sem hafa þannig hvílt á „spássíunni“. Þá verða listamenn hvattir til að skapa verk í gagnvirku samtali við þessi svæði, þar sem verkið mótar rýmið og rýmið mótar verkið. Sýningin leitast því við að ögra hinni hefðbundnu híerarkíu sem ríkir milli verks og rýmis og leggur til vistfræðilegt samhengi þar sem listaverk, rými, texti og áhorfandi hafa öll jafn mikið vægi.

Katrín Björg Gunnarsdóttir (f. 1994) er búsett í Japan þar sem hún stundar meistaranám í sýningarstjórnun við Listaháskólann í Tókýó. Hún lauk áður BA-prófi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2021. Í rannsóknum sínum einblínir hún á samband rýmis, verka og áhorfenda og skoðar hvernig sýningarrýmið hefur áhrif á upplifun listarinnar. Nálgun hennar byggir á hugmyndum nýefnisstefnu (e. New Materialism) og sameinar fræðilega greiningu og sýningarlega framkvæmd. Nýlega lauk sýningu í galleríinu 5th Floor í Tókýó, þar sem þessar hugmyndir voru kannaðar, auk þess sem hún hefur komið að öðrum sýningum í Tókýó. Hún er einnig sýningarstjóri samsýningar norðlenskra listamanna, Mitt rými, sem stóð yfir í Listasafninu á Akureyri fyrr á árinu.

Úlfur Bragi Einarsson (f. 1993) lauk BA-prófi í arkitektúr frá Listaháskóla Íslands árið 2020 og starfaði síðar hjá arkitektastofunni KRADS. Hann er nú búsettur í Tókýó, þar sem hann stefnir á meistaranám. Rannsóknir hans snúa að týndum hefðum og kanna hvernig leit til fortíðar getur opnað leiðir til framtíðar, einkum í samhengi við sjálfbærni. Úlfur hefur sérstakan áhuga á því hvernig arkitektúr mótar og er mótaður af fólki, hegðun og umhverfi, þar sem byggingar verða hluti af víðara vistfræðilegu samhengi. Þá hefur hann nýlega komið að uppsetningu ýmissa sýninga í Tókýó.

Sýningin spássían verður sú sextánda í haustsýningarröð Hafnarborgar. Verkefnið hefur það að markmiði að gefa breiðu sviði sýningarstjóra kost á að senda inn tillögu að sýningu í safninu og láta rödd sína heyrast. Það er listráð Hafnarborgar ásamt forstöðumanni sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna ár hvert. Nöfn þátttakenda og frekari upplýsingar verða birtar síðar.

Leturgerð Rúnu – styrkur úr Hönnunarsjóði

Hafnarborg hefur hlotið 750.000 króna styrk úr Hönnunarsjóði til verkefnisins „Rúna, leturgerð“, sem snýst um endurhönnun og sýningu á leturgerð Sigrúnar Guðjónsdóttur (f. 1926).

Markmið verkefnisins er að gera leturgerð listakonunnar aðgengilega í tölvutæku formi og kynna hana almenningi í Hafnarborg í tengslum við HönnunarMars 2026.

Þá undirstrikar verkefnið mikilvægi varðveislu og nýsköpunar á sviði íslenskrar leturgerðar en það er eitt af alls 28 fjölbreyttum verkefnum á sviði hönnunar og arkitektúrs sem hlutu styrki úr sjóðnum að þessu sinni.

Starfsfólk Hafnarborgar þakkar kærlega fyrir veittan stuðning og við hlökkum til að deila afrakstrinum með gestum þegar þar að kemur.

Tónleikadagskrá – haust/vetur 2025

Í september hefst nýtt tónleikaár í Hafnarborg en framundan er fjölbreytt dagskrá, þar sem fram mun koma tónlistarfólk í fremstu röð, auk ungra og efnilegra flytjenda. Þá hefja Síðdegistónar göngu sína að nýju föstudaginn 5. september, eftir hlé síðan í lok síðasta árs. Hinir sívinsælu hádegistónleikar hefjast svo þriðjudaginn 9. september og hlökkum við til að njóta tónlistar með ykkur í safninu á misserinu framundan.

Tónleikadagskráin í haust/vetur 2025

5. september kl. 18
Síðdegistónar
Kvartett Söru Magnúsdóttur

9. september kl. 12
Hádegistónleikar
Hanna Þóra Guðbrandsdóttir

7. október kl. 12
Hádegistónleikar
Jóhann Smári Sævarsson

10. október kl. 18
Síðdegistónar
Tríó Gullu Ólafsdóttur

4. nóvember kl. 12
Hádegistónleikar
Aron Axel Cortes

14. nóvember kl. 18
Síðdegistónar
Multiverse – kvartett Scotts McLemore

2. desember kl. 12
Hádegistónleikar
Hanna Dóra Sturludóttir

5. desember kl. 18
Síðdegistónar
Silva Þórðardóttir

6. desember
Syngjandi jól
Kórtónleikar

Haustsýning 2026 – kallað eftir tillögum

Líkt og undanfarin ár gefst sýningarstjórum tækifæri til að senda inn tillögur að haustsýningu næsta árs í Hafnarborg. Haustsýningaröðin hóf göngu sína árið 2011 en hingað til hafa fimmtán sýningar verið valdar úr miklum fjölda innsendra tillagna eftir sýningarstjóra með ólíkan bakgrunn og reynslu. Þá var væntanleg haustsýning Hafnarborgar, Algjörar skvísur, í sýningarstjórn Jösu Baka og Petru Hjartardóttur, valin með sama hætti úr þeim tillögum sem bárust á síðasta ári en sýningin verður opnuð 28. ágúst næstkomandi.

Markmiðið með því að óska eftir innsendum tillögum er að fá tækifæri til að velja til samstarfs sýningarstjóra eða sýningarstjórateymi, sem leggur fram áhugaverða sýningartillögu, auk þess að vera vettvangur fyrir upprennandi sýningarstjóra til að koma hugmyndum sínum á framfæri. Eru sýningarstjórar með stuttan feril að baki því sérstaklega hvattir til að sækja um. Það hefur enda sýnt sig að fyllsta ástæða er til að halda úti slíku verkefni en út frá því hafa orðið til fjölbreyttar sýningar, sem vakið hafa athygli og fengið góða aðsókn.

Óskað er eftir hugmyndum að samsýningum þar sem viðfangsefni, vinnuaðferð og/eða aðrar hugmyndir tengja verk listamanna (allt að átta talsins) en einnig koma til greina sýningar sem fela í sér greiningu eða sérstaka sýn á verk ákveðins listamanns. Jafnt koma til greina sýningar á verkum samtímalistamanna og sýningar sem fela í sér sögulega greiningu. Þá er það listráð Hafnarborgar sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna í samráði við forstöðumann.

Frestur til að skila inn tillögum rennur út á miðnætti sunnudaginn 7. september næstkomandi.

Aðeins er tekið við tillögum í tölvupósti á netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is (sjá nánar í lokin).


Umsóknarferli

Umsóknarferlið er tvískipt og eru umsækjendur vinsamlegast beðnir um að kynna sér ferlið vel með því að fara yfir þau atriði sem talin eru hér fyrir neðan.

1. hluti

Í fyrri umferð er óskað eftir eftirfarandi upplýsingum:

  • Lýsingu á verkefninu þar sem lögð er áhersla á hugmyndina að baki sýningunni (hámark 1000 orð).
  • Ferilskrá(m) sýningarstjóra.
  • Stuttum ferilskrám listamanns eða -manna (allt að átta talsins), auk annarra sem lagt er til að verði hluti af sýningarverkefninu.

Gefa skal eins nákvæma lýsingu og unnt er, innan uppgefinna marka um orðafjölda. Einnig er leyfilegt er að láta myndefni, sem er lýsandi fyrir verkefnið, fylgja tillögunni, þó ekki séu gerðar kröfur um slíkt í fyrri umferð. Þá er umsækjendum bent á að kynna sér vel húsnæði Hafnarborgar áður en tillögur eru sendar inn. Listráð Hafnarborgar, ásamt forstöðumanni, metur innsendar tillögur og velur verkefni til frekari skoðunar í annarri umferð.

2. hluti

Þeim sýningarstjórum sem eiga þær tillögur sem valdar eru til frekari skoðunar verður boðið að kynna hugmyndir sínar og senda inn ítarefni, svo sem sýningarskrár, myndefni eða myndbönd, auk þess sem vinna þarf að raunhæfri kostnaðaráætlun fyrir verkefnið. Reiknað er með að sýningin og vinnan við hana falli að fjárhagsáætlun safnsins, ella verði leitað leiða til að fá sérstakan stuðning við verkefnið.

Við mat á tillögum verða eftirfarandi atriði skoðuð:

  • Val á listamönnum.
  • Hvort sýningin kynni nýstárlega sýn á myndlist, t.d. innihald og/eða miðla.
  • Hvort um sé að ræða ný eða eldri verk eða jafnvel blöndu hvors tveggja.
  • Hvort sýningin hafi sérstaka skírskotun til Hafnarborgar eða Hafnarfjarðar, svo sem með tilliti til nærsamfélags, umhverfis, safneignar o.s.frv.
  • Hvort sýningin nýti sýningarrými Hafnarborgar á frumlegan hátt.
  • Ferill sýningarstjóra.
  • Tillögur að dagskrá í tengslum við sýninguna (leiðsögn, málþing, námskeið o.s.frv.).
  • Tillögur að hugsanlegri útgáfu.
  • Að kostnaður við verkefnið sé innan viðráðanlegra marka (nánari útfærsla kostnaðar fer fram í síðari hluta ferlisins).

Grunnmynd af sölum Hafnarborgar má finna hér. Eru teikningarnar ætlaðar til viðmiðunar við undirbúning tillagna en þess er ekki krafist að þær séu hannaðar nákvæmlega inn í rýmið.


Allar tillögur skulu sendar á netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is, merktar „Haustsýning 2026“. Í kjölfarið verður send staðfesting á því að tillagan hafi verið móttekin en bent er á að hafa samband í síma 585 5790, berist sú staðfesting ekki. Þá verða allir umsækjendur upplýstir um það hvort tillaga þeirra hafi hlotið brautargengi eður ei. Allar niðurstöður verða sendar með tölvupósti.

Nánari upplýsingar veitir skrifstofa Hafnarborgar í síma 585 5790.

Sönghátíð í Hafnarborg – master class í aðalsal

Sönghátíð í Hafnarborg hefur frá upphafi staðið fyrir master class námskeiði fyrir lengra komna söngnemendur og söngvara. Í ár stendur námskeiðið yfir dagana 23. til 26. júní og fyllir tónlistin því húsakynni Hafnarborgar á meðan. Námskeiðið er haldið í aðalsal safnsins frá morgni til seinniparts dags, svo að gestir sem heimsækja sýningar safnsins fá að njóta söngs þátttakenda í leiðinni. Námskeiðinu lýkur svo með tónleikum nemenda sem fara fram fimmtudaginn 26. júní kl. 20 sem hluti af dagskrá Sönghátíðar. Leiðbeinandi námskeiðsins að þessu sinni er stórsöngvarinn Kristinn Sigmundsson en honum til fulltingis er píanóleikarinn Helga Bryndís Magnúsdóttir, sem mun einnig koma fram með nemendum á tónleikunum.

Nánari upplýsingar um Sönghátíð í Hafnarborg má finna á heimasíðu hátíðarinnar, www.songhatid.is.

Sumarnámskeið 2025 – myndlist og tónlist

Í sumar býður Hafnarborg börnum á aldrinum 6–12 ára að taka þátt í skapandi myndlistarrnámskeiðum, þar sem ímyndunaraflið fær að njóta sín. Þátttakendur fá tækifæri til að kanna umhverfið á listrænan hátt, skoða sýningar safnsins og vinna að fjölbreyttum verkefnum.

Áhersla er lögð á leik og sköpun þar sem grunnatriði myndlistar eru kynnt í gegnum leiðangra, athugun og tilraunir. Unnið verður með ýmsa miðla – teikningu, málun og mótun – með það að markmiði að styrkja sjónræna skynjun, efla skapandi hugsun og styðja við persónulega tjáningu hvers og eins.

Boðið er upp á tvö fjögurra daga námskeið og eitt fimm daga námskeið fyrir tvö aldursbil: 6–9 ára og 10–12 ára.

Námskeiðið sem hefst 23. júní verður svo með sérstökum tónlistar- og söngþætti í tengslum við Sönghátíð í Hafnarborg og lýkur með þátttöku barnanna í fjölskyldutónleikum föstudaginn 27. júní kl. 17.


Boðið verður upp á eftirfarandi sumarnámskeið:

10. júní–13. júní (4 dagar)
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára: kl. 13:00–16:00

16. júní–20. júní (4 dagar)
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára: kl. 13:00–16:00

23. júní–27. júní (5 dagar)
6–9 ára: kl. 9:00–12:00
10–12 ára: kl. 13:00–16:00


Námskeiðsgjald fyrir 5 daga er 18.000 krónur og gjald fyrir 4 daga er 14.400. Foreldrar og forsjáraðilar eru vinsamlegast beðin að láta vita ef barn er með sérþarfir sem taka þarf tillit til.

Athugið að fjöldi þátttakenda í sumarnámskeiðunum er takmarkaður.

Skráning fer fram í gegnum frístundavefinn Völu. Frekari upplýsingar um námskeiðin eru veittar í síma 585 5790 eða í gegnum netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is.

Páskar 2025 – opnunartími í Hafnarborg

Nú líður senn að páskum og sendir starfsfólk Hafnarborgar vinum og velunnurum safnsins hugheilar óskir um gleðilega hátíð. Þá vekjum við athygli á opnunartímanum hjá okkur um páskana:

Skírdagur 17. apríl
Opið kl. 12–17

Föstudagurinn langi 18. apríl
Lokað

Laugardagur 19. apríl
Opið kl. 12–17

Páskadagur 20. apríl
Lokað

Annar í páskum 21. apríl
Opið kl. 12–17

Í safninu standa nú yfir tvær sýningar. Annars vegar er það sýningin Staldraðu við, þar sem getur að líta verk eftir átta listamenn frá Englandi og Íslandi. Í Sverrissal er það svo sýningin Alverund eftir Jónu Hlíf Halldórsdóttur, sem vinnur með samspil texta og mynda og kannar sköpunarmátt tungumálsins.

Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.

Hafnarborg og Uppsalir – verk úr safneign

Í samstarfi við Uppsalaborg og Uppsala konstmuseum kynnir Hafnarborg sýningu á völdum verkum úr safneign, sem opnuð verður laugardaginn 12. apríl kl. 14 í Uppsalakastala. Sýningin, sem ber titilinn Frá sögu til samtíðar (sæ. Från saga till samtid), byggist á farsælu vinabæjarsamstarfi á milli Hafnarfjarðar og Uppsala en síðar á árinu verður opnuð sýning á sambærilegum grunni í Hafnarborg, þar sem sýnd verða listaverk úr safni Uppsalaborgar. Verkefnið er styrkt af safnasjóði.

Á sýningunni í Svíþjóð verða sýnd verk eftir Hildi Ásgeirsdóttur Jónsson, Tinnu Gunnarsdóttur, Guðjón Ketilsson, Jónínu Guðnadóttur, Rúnu, Marinó Thorlacius, Astrid Kruse Jensen, Gurli Elbækgaard, Eirík Smith, Guðmund Thoroddsen, Margréti Sveinsdóttur, Guðnýju Magnúsdóttur, Hallgerði Hallgrímsdóttur, Eddu Jónsdóttur og Koggu.

Í sýningarnefnd eru þau Aldís Arnardóttir, Hólmar Hólm, Mikaela Granath og Tove Otterclou.

Sýningin mun standa yfir til 8. júní næstkomandi og hvetjum við öll þau sem eru búsett á svæðinu eða eiga leið til borgarinnar til að heimsækja Uppsala konstmuseum og skoða sýninguna.

Hægt er að lesa um sýninguna hér á heimasíðu Uppsala konstmuseum.

Apríl – hádegistónleikar falla niður

Við vekjum athygli á því að næstu hádegistónleikar, sem áætlað var að færu fram þriðjudaginn 1. apríl, falla niður af óviðráðanlegum ástæðum.

Þá bjóðum við ykkur velkomin á síðustu hádegistónleika vormisseris í Hafnarborg þriðjudaginn 6. maí næstkomandi en Edda Austmann Harðardóttir verður gestur Antoníu Hevesi á tónleikunum.

Við biðjumst innilegrar velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda og hlökkum til að taka á móti ykkur síðar.